Sendur tölvupóstur út frá spurningum "Áfram" já hópsins og svar
27.3.2011 | 18:43
Í morgun (þann 27. mars 2011) skoðaði ég vefsíðu "Áfram" já hópsins. Og þegar ég las þeirra ástæður fyrir "Já, Icesave" þá brá mér mjög í brún og fór að skrifa tölvupóst til advice.is og kjosum.is um svar við þessar spurningar, og svona hljóðar tölvupósturinn sem ég sendi til advice.is og kjosum.is:
[Hér fyrir neðan eru spurningar og svör sem "Áfram" já hópurinn leggur fram til svara um ábyrgð Icesaves. Eru þessar spurningar og svör rangfærðar til blekkinga eða eru þetta staðreyndir sem þau fara með? Ef svo, getið þið útskýrt þær spurningar og svör sem "Áfram" já hópurinn fer með, undir rauð-skáletruðu orðunum sem ég setti inn til spurninga, sem og ég velta mér fyrir hvort séu staðreyndir eða blekkingar.
Gott væri að fá svör frá ykkur um þessar spurningar og svör sem "Áfram" já hópurinn leggur fram.
Af hverju á ég að taka á mig skuldir einkabanka?
Þú ert ekki að því. Þann 9. apríl segjum við já við samkomulagi um að eignir þrotabús gamla Landsbankans gangi upp í skuldbindingar Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta vegna lögbundinna lágmarkstrygginga á sparifé fólks í öllum útibúum bankans. Bresk og hollensk stjórnvöld greiddu þarlendum sparifjáreigendum út þar sem eignir TIF dugðu ekki. Sem stofnandi og bakhjarl TIF ábyrgist ríkissjóður aðeins vaxtagreiðslur og uppgjör ef eitthvað verður enn ógreitt af skuldbindingum sjóðsins þegar búið er að borga út úr búinu 2016.
Afhverju á að semja um kröfur sem ekki eiga stoð í lögum?
Eftirlitsstofnun EFTA sem hefur það hlutverk að framfylgja lögum og reglum á EES svæðinu hefur þegar gefið út það álit að Ísland beri ábyrgð á því að íslenska innstæðutryggingakerfið getið staðið við lögbundna lágmarkstryggingu sparifjáreigenda í öllum útibúum íslensku bankanna. Sömu sjónarmið hafa komið fram af hálfu allra þeirra vinaþjóða sem skilyrtu fjármögnun og stuðning við að samið yrði um lausn þessa deilumáls. Íslenskir lögmenn sem skiluðu fjárlaganefnd áliti voru ósammála um lagalega stöðu málsins og hæstaréttarlögmenn sem lögðust gegn fyrri Icesavesamningum telja að áhætta og kostnaður sé í slíku lágmarki að það sé mun meiri áhætta fólgin í dómsmáli en því að semja.
Ræður Ísland við að borga samninginn?
Já. Allar fullyrðingar um yfirvofandi gjaldþrot vegna þessa samnings eru hræðsluáróður og þarf ekki annað en bera stærðirnar í honum saman við annan kostnað vegna hruns bankakerfisins til að átta sig á því. Fari allt á versta veg inniheldur samningur fyrirvara til að varnar. En langmestar líkur eru á því að þrotabúið geri meira en að standa undir öllum höfuðstól skuldbindingar Tryggingasjóðs innstæðueigenda svo ekki komi til neinnar ríkisábyrgðar vegna hans. Þrotabúið á nú þegar reiðufé og forgangsskuldabréf upp á 677 milljarða kr. sem er rúmlega helmingur allra forgangskrafna. Aðrar eignir eru til varúðar metnar á innan við þriðjung af nafnverði.
Af hverju eiga börnin mín og barnabörnin að borga?
Ef þú segir JÁ í kosningunum 9. apríl, þá kemur þú í veg fyrir að komandi kynslóðir þurfi að greiða svo mikið sem eina krónu vegna Icesave. Gert er ráð fyrir því í samningnum sem kosið verður um að málið verði endanlega úr sögunni árið 2016. Ef við segjum hins vegar nei við samningnum, þá erum við að vísa málinu frá okkur og taka stórkostlega áhættu fyrir hönd barnanna okkar og barnabarna.
Vefslóð "Áfram" já hópsins => http://afram.is/spurt-og-svarad/
Og sjálfur langar mig að spyrja: "Ef þetta er blekkingar, er þá Áfram hópurinn ekki að brjóta lög með þessum blekkingum, með því að gefa fram rangar upplýsingar til kjósenda Icesaves? Og ef þetta er rangar upplýsingar, getið þið stoppað þær?".]
Og hér eru svörin sem ég fékk frá Samstöðu Þjóðar gegn Icesave:
[Af hverju á ég að taka á mig skuldir einkabanka?
Engar gildar röksemdir hafa verið færðar fyrir ríkisábyrgð á Icesave-reikningum Landsbankans. Samkvæmt Tilskipun 94/19/EB var ríkissjóði gert að koma á fót innistæðu-trygginga-kerfum, einu eða fleirrum. Jafnframt var tekið skýrt fram að ríkisábyrgð á tryggingasjóðunum er bönnuð.
Landsbankinn var með tvöfaldar innistæðu-tryggingar fyrir Icesave. Tryggingasjóðurinn í Bretlandi FSCS og DNB í Hollandi báru fulla ábyrgð á öllum tryggingum vegna Icesave, þar á meðal lágmarkstryggingu ESB jafnframt TIF. Þessir sjóðir greiddu þær innistæðu-bætur sem þeim bar að greiða.
Af hverju á að semja um kröfur sem ekki eiga stoð í lögum?
Rangar kröfur verða ekki réttar vegna þess eins að margir aðilar halda þeim fram. Það þarf fólk með þrælslund að fallast á ranglátar kröfur, sem fela í sér efnahagslegar byrgðar auk fullkominnar niðurlægingar þjóðarinnar. Samningaleið ríkisstjórnarinnar felur í sér afsal lögsögu landsins í hendur Bretlands og Hollands. Afsalið er fullkomið, því að bretum og hollendingum er gefið sjálfdæmi varðandi Icesave-málið allt og allt sem því tengist. Engin þjóð hefur afsalað sjálfstæði sínu á þennan hátt, í gervallri mannkynssögunni.
Ræður Ísland við að borga samninginn?
Enginn getur svarað því hversu hár Icesave-reikningurinn verður, ef Icesave-lögin verða samþykkt. Hvort sem reikningurinn verður tugir milljarða eða hundruð milljarða verður algerlega háður utanaðkomandi aðstæðum. Í öllum tilvikum verður Icesave-klafinn þyngstur þeim sem síðst skyldi, það er að segja lægst launaða fólkinu í landinu. Þeir sem mæla Icesave-lögunum bót, vita að klafinn mun ekki lenda á þeim sjálfum af verulegum þunga.
Af hverju eiga börnin mín og barnabörnin að borga?
Icesave-kröfurnar verða fyrst alvarlegar þegar þær hafa öðlast lögvarða stöðu, með JÁ í þjóðaratkvæðinu. Fram að þessu hefur Icesave-málið verið á Dómstólaleiðinni og sú leið hefur gefist okkur vel. Með NEI sigri í þjóðaratkvæðinu, höldum við áfram á Dómstólaleiðinni og getum varið okkur með lögsögu Íslands.
Hægt er að færa stærðfræðileg rök fyrir því að líkur fyrir sakfellingu í hugsanlegum dómsmálum eru nær óendalega litlar. Hinn kosturinn er Icesave-samningarnir, sem munu leiða samstundis til greiðslu tuga milljarða, sem falla algerlega utan við útgreiðslur úr þrotabúi Landsbankans. Vaxta-kröfur mæta ávallt afgangi við uppgjör þrotabúa og JÁ í þjóðaratkvæðinu mun því örugglega merkja, að álögur verða lagðar á alla Íslendinga, þar á meðal börn, barnabörn og barnabarnabörn.
http://kjosum.is/spurt-og-svarad].
Hvaðan fá þeir frá já hópnum þessar upplýsingar sem þau fullyrða til kjósenda sinna, manni þætti gaman að fá að vita það???
Stöndum nú saman kæra þjóð og fellum Icesave, því við skuldum ekki þessar skuldir, og alveg sama hvað já hópurinn segir, þá segi ég: "Nei, Icesave!!!". Enn þú???
Kær kveðja frá ykkar einlæga vin,
Magnús Ragnar (Maggi Raggi).
Athugasemdir
Í upphafi skrifaði ég að Advise hópurinn hefði sent mér tölvupóstinn, enn það var Samstaða Þjóðar gegn Icesave sem sendi mér tölvupóstinn. Þar með vill ég biðja lesendur mína innilegar afsakanir á smá tölvupósts ruglingi, því ég fékk tölvupóst frá hópnum um þessi mistök og var beðin um að leiðrétta þetta og þar með leiðrétti ég þau mistök.
Kær kveðja frá ykkar einlæga vin,
Magnús Ragnar (Maggi Raggi).
Magnús Ragnar (Maggi Raggi)., 27.3.2011 kl. 22:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.